Skip to content

Barnaþing

Í dag var mikið um að vera í skólanum í tilefni af degi mannréttinda barna sem er á morgun. Við héldum í fyrsta skipti Barnaþing þar sem börnin í skólanum fengu tækifæri á að tala saman og segja sína skoðun á málum sem þau snerta. Umræðuefnið var skólalóðin, frímínútur og matsalurinn. Börnunum var skipt í barnaþingshópa, þvert á árganga og fórum umræður fram út um allan skóla. Börnin í 7. bekk fengu það hlutverk að stýra umræðunum og voru alla vikuna að undirbúa sig fyrir það.

Markmið barnaþingsins er að styðja við 12. grein Barnasáttmálans sem  fjallar um rétt barna til að taka þátt og hafa áhrif á ákvarðanatökur um mál sem þau varða og að tillit sé tekið til skoðana þeirra.

Barnaþingið gekk svakalega vel og voru flottar umræður sem sköpuðust í hópunum. Öll börn skólans fengu pizzu í hádeginu og íspinna í eftirrétt við tónlist og diskóljós. Næst tekur réttindaráð skólans við fundargerðum og vinnur úr þeim og kemur málum áfram í réttan farveg.

Dagurinn var frábær og er Barnaþingið klárlega komið til að vera í Vesturbæjarskóla.