Skip to content

Í Vesturbæjarskóla er löng hefð fyrir mörgum viðburðum en skólinn er í sífelldri þróun og nýjar hefðir og venjur verða til og gamlar breytast. Hér verða taldir upp helstu viðburðir skólaársins 2018-2019.

Öskudagur

Öskudagur er svokallaður skertur dagur í skólanum. Nemendur mæta skv. stundaskrá en dagurinn er haldinn hátíðlegur með „marseringu“ um skólann og ýmsum uppákomum í bekkjunum. Nemendur mæta í búningum þennan dag og fara heim eftir að hafa borðað hádegismat.

Þemadagar

Þemadagar eru haldnir á hverju skólaári. Skipulag daganna er breytilegt á milli ára, eftir því sem þykir henta hverju sinni. Nemendum vinna saman verkefni á stöðvum og ýmist blandað eftir öllum árgöngum eða yngra og eldra stig. Verkefnin eru skipulögð út frá markmiðum aðalnámskrá og lögð er mikil áhersla lögð á vægi list- og verkgreina.

Jólahefðir

Hefð er fyrir því að 7. bekkur frumsemji, æfi og sýni jólaleikrit á jólaskemmtun og fer mikill tími í desember í það verkefni. 18. desember er rauður dagur þar sem allir mæta í einhverju rauðu og 19. desember eru jólaskemmtanir. Þá mæta nemendur á jólaskemmtun á ákveðnum tíma þar sem 7. bekkur sýnir jólaleikritið, árgangarnir eru með söngatriði og dansað er í kringum jólatréð við undirspil jólahljómsveitar kennara. Samsöngur eru einu sinni í viku á aðventunni.

Vinahópar

Vinahópar hittast nokkrum sinnum á skólaári t.d. í kringum jól og vinna saman verkefni sem kennarar ákveða. Vinahópar eru 1., 4. og 7. bekkur, 2. og 5. bekkur og 3. og 6. bekkur.

Samsöngur

Sterk hefð hefur verið fyrir samsöng í Vesturbæjarskóla.

Upplestrarhátíð 7. bekkjar

Undirbúningur fyrir upplestrarhátíð 7. bekkjar hefst á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Nemendur vinna ýmis verkefni fram að keppni sem er venjulega í febrúar. Hátíðin fer fram á sal skólans og eru valdir þrír dómarar úr hópi kennara og foreldra við skólann. Þeir nemendur sem vinna keppnina fara áfram í Stóru upplestrarkeppnina fyrir hönd skólans.

Vinaleikar Vesturbæjarskóla

Vinaleikar Vesturbæjarskóla eru dagur þar sem nemendum er skipt í hópa þvert á árganga og taka þátt í fjölbreyttum þrautum og leikjum. Markmið er að nemendur geri sér grein fyrir styrkleikum sínum og fái tækifæri til að leggja sitt af mörkum í samvinnu við aðra, allir geta eitthvað, enginn getur allt. Tilgangurinn er þó fyrst og fremst að hafa gaman.

Heilsuvika og skólahlaup

Einu sinni á vetri er haldin heilsuvika í skólanum. Í tengslum við þá viku hefur hjúkrunarfræðingur staðið fyrir fræðslu til handa nemendum um ýmis málefni tengd heilsu og geðrækt. Í lok heilsuviku er svo skólahlaup. Skólahlaupið er haldið í tengslum við heilsuviku að hausti. Hlaupið er frá skólanum sem leið liggur niður að Ánanaustum og að merki Seltjarnarness. Nemendur, kennarar og foreldrar hlaupa og á eftir býður foreldrafélagið þátttakendum upp á hressingu í skólanum.

Reykir

7. bekkur fer að hausti í Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði. Vorið fyrir ferðina sjá nemendur um kaffisölu á vorhátíð og einnig fyrir jólin. Kostnaður við þá ferð hefur hingað til alfarið verið fenginn við fjáröflun sem foreldrar, nemendur og kennarar sjá um.