Skip to content

Heilbrigði og velferð er einn af sex grunnþáttum menntunar samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla (2011). Grunnþættirnir eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir eiga að vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða, bæði hvað varðar þá þekkingu og leikni sem börn og ungmenni skulu afla sér. Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan.

Í Vesturbæjarskóla er leitast til við að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skólans á að vera meðvitað um hvað felst í heilsutengdum forvörnum og geta nýtt sér áreiðanlegar upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á heilbrigði.

Heilsueflandi grunnskóli:

 • stuðlar að góðri heilsu og líðan nemenda og starfsfólks.
 • bætir námsárangur.
 • örvar til þátttöku og ábyrgðar með virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum.
 • sér til þess að skólaumhverfið sé öruggt og hlúir að nemendum.
 • eflir nemendur og fær þá til að taka virkan þátt í námi og félagslífi.
 • tengir saman heilsu- og menntamál.
 • tekur á heilsu og vellíðan alls starfsfólks.
 • vinnur með foreldrum og sveitarstjórn.
 • fléttar heilsumálin saman við daglegt skólalíf, námskrá og árangursmat.
 • setur sér raunhæf markmið byggð á nákvæmum upplýsingum og traustum gögnum.
 • leitast við að gera æ betur, fylgist með, metur stöðuna og endurmetur aðgerðaáætlanir.