Skip to content

Heilsuvika í 3. bekk

Í heilsuviku gerðum við tilraun með brauð og bakteríur. Við settum þrjár brauðsneiðar í zip-lock poka og erum að fylgjast með brauðinu mygla. Ein brauðsneið var sett ofan í poka með hanskaklæddri hönd, næsta brauðsneið var sett í poka með eftir handþvott kennara og síðasta brauðsneiðin var látin ganga milli barna eftir frímínútur og nokkrar klósettferðir. Þið getið rétt ímyndað ykkur sýklaflóruna sem smurðist á þriðju sneiðina. Pinterest vefsíðan sýndi okkur vel myglaðar brauðsneiðar en okkar eru ekki enn byrjaðar að mygla, við leyfum brauðsneiðunum að hanga úti í glugga þar til eitthvað fer að gerast.


Þessi tilraun tengist handþvotti og ósýnilegu bakteríunum sem er að finna á öllum höndum. Við ætluðum að sanna fyrir börnunum að handþvottur sé æskilegur svo að við verðum ekki veik og nauðsynlegt að þvo sér eftir hverja klósettferð en… það er ekkert byrjað að mygla svo við verðum að bíða aðeins með að sanna þetta fyrir þeim ?
Önnur tilraun sem við gerðum snýr að tannheilsu, við settum 5 stykki af eggjum í jafnmargar krukkur, helltum svo vel völdum vökvum yfir. Við erum að rannsaka hvaða áhrif ýmsir vökvar hafa á eggin. Vökvarnir eru kók, mjólk, ávaxtasafi, vatn og sódavatn. Eggjaskurn er með svipaða efnabyggingu og tennurnar okkar og því er svo auðvelt að sjá hvaða áhrif þessir vökvar hafa á eggin. Krukkurnar eru úti í glugga og eru nemendur mjög áhugasamir að sjá hvaða áhrif vökvarnir hafa á eggin. Sum eggin eru byrjuð að leysast upp, á meðan önnur halda sér vel. Mjólkin er að vísu farin að ysta en það er aukaverkun sem súrnuð mjólk í hlýjum glugga hefur og gaman að ræða það við börnin líka ?

Með stuðkveðju 3. bekkur, bakteríurnar og krukkueggin.