Skip to content

Fyrstu skrefin

Einkunnarorð Vesturbæjarskóla eru virðing, vellíðan og velgengni. Með það að leiðarljósi leggjum við áherslu á alúð, hlýju og áhuga á velferð nemenda okkar. Við sem vinnum í skólanum leggjum okkur fram við skapa umhverfi þar sem börnunum líður vel í skólanum og nái framförum í námi sínu. Upplifun hvers barns er einstök og með því að veita hverju barni athygli og rými hjálpum við þeim að finna hvar styrkur þeirra liggur. 

Skólastjóri er Margrét Einarsdóttir og aðstoðarskólastjóri Þóra Björk Guðmundsdóttir. Deildarstjóri stoðþjónustu er Hrefna Birna Björnsdóttir,  almennur deildarstjóri er Guðlaug Elísabet Finnsdóttir og skrifstofustjóri er Kalla Björg Karlsdóttir. Skrifstofa skólans opin frá 8:00-16:00 alla virka daga og er símanúmer skólans 411-7150. Hér eru nánari upplýsingar um starfsfólk skólans. 

Að byrja í skóla

Þegar barn fer úr leikskóla í grunnskóla er augljósasta breytingin sú að námið er lögbundið en nám í leikskóla er valkvætt. Foreldrum er því skylt að sjá til þess að barn þeirra sæki grunnskóla. Gott samstarf er á milli Vesturbæjarskóla og leikskóla í hverfinu og hefð er fyrir því að börn í elstu deild leikskólanna koma í nokkrar heimsóknir í skólann yfir skólaárið þar sem börnin fá tækifæri á að taka þátt í skólastarfinu sem dæmi vali og útikennslu. Fimm ára börn sem búa í hverfi Vesturbæjarskóla fá bréf frá skólanum að vori þar sem þeim er boðið að koma í skólann ásamt foreldrum á kynningu um skólastarfið. Börnin fá tækifæri til að skoða skólastofur með kennurum og hitta skólafélaga á meðan foreldrar og skólastjórnendur eiga samtal og skoða skólann. Að hausti eru börn og foreldrar boðuð í viðtal hjá umsjónarkennurum áður en skólastarf hefst.

Hagnýtar upplýsingar

Allar upplýsingar um skólastarfið má finna á heimasíðu skólans undir starfshættir, nám og kennsla og skólanámskrá auk þess sem við birtum reglulega fréttir úr skólastarfinu. Við hvetjum foreldra til að fylgja okkur á facebook. Upplýsingar um mikilvægar dagsetningar í skólastarfinu má nálgast í skóladagatalinu eins og skólasetningu, ýmsa viðburði innan skólans, frídaga og samráðsdaga. Undir foreldraflipanum á heimasíðunni má finna ýmsar upplýsingar eins og um foreldrafélag, mötuneytibekkjarfulltrúa, nesti og leyfisumsóknir

Samstarf heimila og skóla

Þegar litið er til niðurstaðna rannsókna á áhrifum foreldra á nám og líðan barna þeirra í skólanum kemur í ljós að enginn einn einstakur þáttur hefur eins mikil áhrif á námsárangur og líðan nemenda. Við óskum eftir góðu samstarfi við foreldra því slíkt samstarf stuðlar að betri skóla og aukinni velferð nemenda.

Frístundaheimili

Skóla- og frístundasvið rekur frístundaheimili í tengslum við Vesturbæjarskóla. Nemendur í  1. - 4. bekk eiga þess kost að fara í frístundaheimili að skóla loknum. Frístundaheimilið Skýjaborgir er fyrir 1.-2. bekk og hefur til umráða húsnæði við Vesturvallagötu og í skólanum.

Stoðþjónusta

Gert ráð fyrir því að nemandinn stundi nám sitt í sínum námshópi með eða án stuðnings. Mat á þörf einstakra nemenda fyrir sérstakan stuðning sem kallar á breytingu á innihaldi náms, kennsluaðferðum og/eða kennsluaðstæðum fer fram í samráði við foreldra. Í einstaka tilfellum er þörf á einstaklingsnámskrá til að bæta nám og/eða líðan nemenda. Deildarstjóri stoðþjónustu ber ábyrgð á að einstaklingsnámskrá sé unnin í samvinnu við umsjónarkennara, þroskaþjálfa og aðra fagaðila eftir atvikum.