Skip to content

Í list- og verkgreinum þroska nemendur með sér sjálfstætt gildismat þar sem lögð er áhersla á að kynnast og njóta list- og verkmenningar.

Þátttaka og þjálfun í gagnrýnni umræðu um handverk og listir veitir nemendum einnig aðgang að menningarorðræðu samfélagsins. Í skapandi starfi og lausnaleit getur nemandinn haft áhrif á umhverfi sitt og tekið þátt í að móta menninguna. Megintilgangur með námi í list- og verkgreinum í grunnskóla er að allir nemendur kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á verkkunnáttu, sköpunarkraft, samhæfingu hugar, hjarta og handar og margar, ólíkar tjáningarleiðir. Þar fá þeir tækifæri til að skapa hluti í handverki, vinna með tákn, tóna, matarmenningu og líkamann í tíma og rúmi og tengja þannig milli hugmyndar, verka og hluta. Allt þetta þroskar og eykur hæfni fólks til að tengja milli hlutbundinnar og óhlutbundinnar hugsunar og takast á við síbreytilegan heim á persónulegan, gagnrýninn og skapandi hátt. Jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms stuðlar að jafnrétti nemenda til að finna hæfileikum sínum farveg.

Nemendum er skipt í árgöngum upp í hópa og fer hver hópur í um það bil 6-8 vikur í hverja grein. Þær verk- og listgreinar sem kenndar eru sem sérgreinar í Vesturbæjarskóla eru tónmennt, heimilisfræði, myndmennt, textílmennt og smíði.