Skip to content

Litla hrekkjavakan í 4. bekk

4.bekkur hélt litlu Hrekkjavöku í skólanum föstudaginn 6.nóvember, því þau voru í sóttkví vikunni áður. Það sáust nornir, persónur úr Harry Potter bókunum, gamlir menn, börn í náttfötum, draugar og alls kyns furðufólk.

Við fórum í tvo Hrekkjavöku Kahootleiki þar sem mesta spennan var að sjá hvaða lið fengu sem flest stig. Ótrúlega spennandi og skemmtilegt.

Einnig fórum við í leik sem heitir: Hvort myndirðu frekar vilja? þar sem allir lásu tvo valmöguleika og völdu með því að standa upp eða setjast niður. Dæmi um valmöguleika: Hvort myndirðu frekar vilja….breytast í vampíru (standa upp) eða breytast í uppvakning (setjast niður). Þessi leikur sló heldur betur í gegn.

Við horfðum líka á litla hrollvekju teiknimynd og fengum ekki að sjá endinn því allir áttu að skrifa hvað gerðist næst og spá um endinn. Síðan voru þeir lesnir upp og gaman að heyra mismunandi vangaveltur hvað myndi gerast. Við horfðum svo á lok myndarinnar og þá komu fram margir mismunandi endar hjá krökkunum en enginn var með hann alveg réttan.

Í lok dagsins var danspartý – stoppdans þar sem allir fóru í jógastellingu á meðan taldar voru 15 sekúndur og svo var dansað af lífi og sál inn á milli. Óhætt er að segja að þessi dagur hafi farið fram úr björtustu vonum barnanna sem kvöddu sátt og glöð inn í helgina.