Skip to content

Í Vesturbæjarskóla tölum við um nemendur og fjölskyldur þeirra af virðingu. Við viljum að foreldrar
geti treyst því að börn þeirra séu örugg í skólanum og að lagður sé metnaður í þá vinnu sem fer fram
innan veggja hans svo nám nemenda verði sem árangursríkast. Við erum jákvæð gagnvart hugmyndum
foreldra um hvað börnum þeirra er fyrir bestu og gerum okkur grein fyrir því að þeir bera höfuðábyrgð
á uppeldi barna sinna. Okkur ber skylda til að sýna foreldrum skilning og setja okkur í þeirra spor. Börnin
eru það dýrmætasta sem foreldrar eiga og þau treysta okkur fyrir þeim.

Leitast er við að skapa jákvætt og uppbyggjandi umhverfi þar sem öllum líður vel. Áætlun gegn
einelti miðar að því að fyrirbyggja einelti og andfélagslega hegðun og taka á slíkum málum þegar þau
koma upp. Allt starfsfólk leggur sig fram við að skapa andrúmsloft sem einkennist af alúð, hlýju og
áhuga á velferð nemenda. Samstarf heimila og skóla á að stuðla að betri skóla og aukinni velferð
nemenda. Lögð er rækt við að byggja upp traust foreldra á skólastarfinu. Allir foreldrar fá þau skilaboð
frá skólanum að hlutverk þeirra í námi barnanna sé mikilvægt og samstarfið við þá skipti velferð barns
þeirra miklu máli. Samskipti við foreldra eru á jafnréttisgrundvelli og einkennast af gagnkvæmri
virðingu.

Einelti er ekki liðið í skólanum og er litið á það sem alvarlegt brot á skólareglum og réttindum
barna. Samkvæmt reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum (1040/2011)
eiga viðbrögð við brotum á skólareglum að vera markviss og til þess fallin að stuðla að jákvæðum
skólabrag, bættri hegðun nemenda, aukinni ábyrgð og áhuga á menntun og miða að því að styrkja
sjálfsmynd nemenda. Allt starfsfólk í Vesturbæjarskóla á að þekkja áætlunina gegn einelti og taka þátt
í þeirri vinnu sem henni tengist. Í því felst að allir leggja sig fram við að skapa andrúmsloft sem
einkennist af alúð, hlýju og áhuga á velferð nemenda og beita íhlutun ef það verður vitni að einelti eða
andfélagslegri hegðun. Árlega er farið yfir áhersluþætti og nýjum starfsmönnum kynnt áætlunin og
stefnu skólans til að tryggja samræmd vinnubrögð. Áætlun gegn einelti er ætlað að styðja starfsmenn
skólans í forvörnum gegn einelti, að bregðast við þegar upp kemur grunur um einelti og að vinna eftir
ákveðnum verkferlum þegar um eineltismál er að ræða.