Skip to content

Gott samstarf stuðlar að betri skóla

Allt samstarf heimila og skóla á að stuðla að betri skóla og aukinni velferð nemenda. Lögð er rækt við að byggja upp traust foreldra á skólastarfinu. Allir foreldrar fá þau skilaboð frá skólanum að hlutverk þeirra í námi barnanna sé mikilvægt og samstarfið við þá skipti velferð barns þeirra miklu máli. Samskipti við foreldra eru á jafnréttisgrundvelli og einkennast af gagnkvæmri virðingu. Eftirfarandi leiðir hafa verið farnar til auka samstarf nemenda, kennara og foreldra.

Samskiptareglur heimila og skóla

Mikilvægt er að samskipti foreldra og kennara séu skýr og skilvirkur þar sem velferð nemenda er höfð að leiðarljósi og um leið þess gætt að samskiptin hafi ekki truflandi áhrif á nám og kennslu.

Heimaverkefni fjölskyldunnar

Einu sinni á ári sendir kennari bréf til foreldra þar sem þeir eru hvattir til að aðstoða börn sín við að vinna tiltekið verkefni og kynna það fyrir bekknum. Verkefnin eru margvísleg og gætu t.d. falist í því að kynna áhugavert safn, segja frá persónu sem fjölskyldan hefur dálæti á eða kynna áhugamál sitt. Kennarinn getur einnig ákveðið að tengja verkefnið námsefninu. Fjölskyldan hefur frjálsar hendur um framsetningu kynningarinnar. Hún getur falist í upplestri, myndbandi, sýningu á hlutum, ljósmyndum, glærusýningu, teikningum eða öðru. Fjölskyldan (pabbi, mamma, afi, amma) fær góðan undirbúningstíma og foreldrar eru hvattir til að taka þátt í kynningunni í skólanum með barni sínu. Kynningartíminn er ákveðinn í samráði við kennara og foreldra. Sem dæmi er hægt að nota fyrstu kennslustund ákveðins vikudags í kynningarnar. Markmið heimaverkefnis er að upphefja nám og skólastarf og að brúa heima barnsins. Heimaverkefni fjölskyldunnar eru unnið í 2., 4. og 6. bekk.

Morgunkaffi

Nemendur og kennari bjóða foreldrum í óformlegt morgunkaffi í fyrstu kennslustund u.þ.b. einu sinni á önn. Ef tilefni er til nota nemendur tækifærið og kynna gestum sérstök verkefni. Markmið er að opna skólann fyrir foreldrum og gefa foreldrum, kennurum og nemendum tækifæri til að hittast.

Samráðsfundir

Formlegir samráðsfundir eru einu sinni á önn og er hverjum nemanda og foreldrum hans ætlaðar 30 mínútur til fundarins. Nemandi og foreldrar undirbúa sig fyrir samráðsfundina með sjálfsmati sem þeir vinna í sameiningu í Mentor. Markmið samráðsfunda er að foreldrar, kennari og nemandi meti stöðuna og komi sér saman um markmið sem allir vinna að og taka ábyrgð á.

Markmið samráðsfunda:

  • Að skapa jákvæð tengsl milli kennara, nemanda og foreldra.
  • Að ræða um líðan nemanda í skólanum.
  • Að skoða markmið og námsframvindu.
  • Að auka kynni milli kennara, nemanda og foreldra

Heimalestur

Mikil áhersla er lögð á heimalestur þegar nemendur eru farnir af stað í lestri. Nemendur fá með sér heim sérstök eyðublöð þar sem foreldrar eru beðnir um að skrá heimalesturinn. Ekki er ætlast til að nemendur séu með skriflegt heimanám nema foreldrar óski sérstaklega eftir því.

Upplýsingabréf til foreldra

Samstörf árganga senda foreldrum í hverri viku upplýsingar og fréttir um skólastarfið. Kennarar senda skólastjóra og aðstoðarskólastjóra afrit af vikubréfunum.

 

Samstarf heimila og skóla

Samskiptareglur heimila og skóla