Skip to content

Skipulag skólastarfs 17. – 20. mars

Kæru foreldrar nemenda í Vesturbæjarskóla

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er komið samkomubann.

Grunnskólum er heimilt að hafa kennslu í skólabyggingum ef þeir tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki á milli hópa og séu ekki á sama tíma í anddyrum og á göngum skólans. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern dag. Ljóst er að skipulag skólastarfsins verður með töluvert breyttum hætti vegna þessara takmarkana.
Markmið þess að halda úti skólastarfi í samkomubanni, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar eru, er að færa nemendum ákveðna festu og áframhaldandi tengsl við kennara/starfsmenn og skólastarfið.

Umsjónarkennarar munu senda póst í dag þar sem fram kemur hvaða inngang börnin eiga að nota og hjá hvaða kennara þeir eru þessa vikuna. Foreldrar skilja við börn sín við inngangana ef þeir fylgja þeim í skólann, aðeins nemendur og starfsfólk mega koma inn í skólann. Mjög mikilvægt er að mæta á réttum tíma því skólinn verður læstur á daginn. Mötuneytið er lokað. Nemendur borða áður en þeir koma í skólann og þurfa því ekki að koma með nesti. Börn í frístund koma með nesti og koma nánari upplýsingar frá þeim. List- og verkgreinar falla niður ásamt íþróttum og sundi. Athugið að í auglýsingu um takmörkun á skólastarfi eru ekki sett viðmið um tveggja metra fjarlægð á milli barna eins og gert er varðandi samkomubannið. Nemendur munu vera í meiri nálægð við þau 20 börn og þá starfsmenn sem sjá um hópinn. Rétt er að geta þess að foreldrum er að sjálfsögðu velkomið að hafa nemendur heima þrátt fyrir að þau tilheyri ekki skilgreindum áhættuhópum.
Nemendur með flensueinkenni eða kvef þurfa að vera heima þar til heilsu hefur verið náð á ný.

Hér kemur skipulag skólastarfs í Vesturbæjarskóla vikuna 17. – 20. mars.
1. bekkur mætir þriðjudag og fimmtudag kl. 11:30 – 13:40
2. bekkur mætir miðvikudag og föstudag kl. 11:30 – 13:40
3. bekkur mætir miðvikudag og föstudag kl. 11:30 – 13:40
4. bekkur mætir þriðjudag og fimmtudag kl. 11:30 – 13:40
5. bekkur mætir þriðjudag og fimmtudag kl. 10:10 – 12:10
6. bekkur mætir miðvikudag og föstudag kl. 10:10 – 12:10
7. bekkur mætir þriðjduag og fimmtudag kl. 13:00 – 14:20

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vita af öllum forföllum sem kunna að verða á nemendum næstu daga þannig að við getum skipulagt starfið út frá því. Vinsamlegast sendið okkur tölvupóst á vesturbaejarskoli@rvkskolar.is eða skráið forföll í Mentor.

Umsjónarkennarar munu setja sig í samband við foreldra þeirra barna sem ekki verða í skólanum næstu vikur.
Foreldrar eru beðnir um að fylgjast reglulega með tölvupósti og heimasíðu skólans. Þetta eru fordæmalausir tímar núna en við gerum hvað við getum til að halda áfram að starfrækja góðan skóla og skapa góða umgjörð um börnin þó með breyttu sniði verði. Hlúum vel að hvort öðru.

Bestu kveðjur og þakkir fyrir samstarf í þessu verkefni,
Stjórnendur Vesturbæjarskóla