Skip to content

Skipulag skólastarfsins í Vesturbæjarskóla

Góðan dag foreldrar nemenda í Vesturbæjarskóla

Ég hef fengið fyrirspurnir frá foreldrum um fyrirkomulag skólastarfsins næstu daga í samkomubanni. Við í Vesturbæjarskóla fylgjum þeim viðmiðum sem unnin hafa verið í samstarfi fræðsluyfirvalda á höfuðborgarsvæðinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skóla- og frístundastarf fer nú fram með takmörkunum í allri borginni. Viðmiðin miða að því að efla smitgát og hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar.

Okkur var falið að skipuleggja skólastarfið m.a. út frá húsnæði og mannafla. Einnig áttum við að skipta mannaflanum í tvennt og þessir hópar eiga ekki að hittast. Einhverjir skólar eru með aðskildar skólabyggingar og geta boðið nemendum kennslu daglega. Við erum með eina byggingu og verðum að skipuleggja okkar kennslu út frá því. Við erum einnig með kennara og starfsfólk sem eru frá störfum á meðan þetta ástand varir sem hefur áhrif á skipulagið. Okkur er heimilt að hafa kennslu ef við tryggjum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu, að nemendur blandist ekki á milli hópa og séu ekki á sama tíma í anddyrum og á göngum skólans. Sama gildir um notkun á salernum skólans.

Þrífa þarf eða sótthreinsa skólabygginguna eftir hvern dag og anddyri eftir þörfum. Sem dæmi nota tveir eða fleiri hópar innganga skólans á mismunandi tímum og þarf að sótthreinsa anddyrið á milli. Í anddyrum þrífum við hurðahúna, læsingar, sjálfvirka hurðaopnara, ljósarofa, handrið og fleira.

Markmið þess að halda úti skólastarfi í samkomubanni, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar eru, er að færa nemendum ákveðna festu og áframhaldandi tengsl við kennara/starfsmenn og skólastarfið.

Í vikunni munum við endurskoða okkar skipulag og senda frá okkur skipulag næstu viku.
Ef til þess kemur að skólanum verður lokað reynum við eftir fremsta megni að tryggja regluleg tengsl við skólann og aðstoða nemendur og foreldra með námið, að halda rútínu og jafnvel hreyfingu. Verið er að skoða leiðir og verkefni í fjarkennslu ef til þess kemur. Á Íslandi er tengslanet kennara mjög sterkt í gegnum samskiptavefi og eru kennarar að deila með sér hugmyndum að verkefnum og leiðum til að koma til móts við nemendur í þessu ástandi.

Þetta er flókið og margslungið verkefni og við erum að gera okkar besta til að fara að þeim fyrirmælum sem fyrir okkur eru lögð. Við vonum að með þessum aðgerðum getum við boðið nemendum okkar að mæta í skólann, þó í litlum mæli sé, fram að páskum.

Góðar kveðjur
Skólastjórnendur Vesturbæjarskóla