Skip to content

Skólastarf í maí

Nú fer loks að líða að því að við getum öll hist og unnið saman. Eins og komið hefur fram hjá Almannavörnum þá á skólahald að verða með eðlilegum hætti frá og með 4. maí. Nú hafa verið gefin út viðmið um skóla- og frístundastarf frá 4. maí af Skóla- og frístundasviði sem byggjast á fyrirmælum ráðuneytisins sem við förum eftir.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá 4. maí. Gæsla hefst kl. 8:00 hjá 1. og 2. bekk. Einnig verður gangbrautarvarsla. Nemendur fara í list- og verkgreinar, útiíþróttir og sund. Nemendur mega blandast í árgöngum og vali.
Nemendur mæta við þá innganga sem þau voru vön að koma inn um áður en samkomubann hófst. Það er mjög mikilvægt að nemendur mæti á réttum tíma því skólinn verður áfram læstur. Ef einhverjir sjá fram á það að komast ekki á réttum tíma er mikilvægt að hafa samband við skrifstofu og láta vita svo hægt sé að hleypa nemendum inn.

Matartímar nemenda verða eins og áður var, þeir mega skammta sér mat sjálfir en yngstu nemendur fá skammtað.
Foreldrar mega ekki koma inn í grunnskóla nema nauðsynlegt sé. Skólinn verður því enn læstur á daginn til að takmarka aðgengi fullorðinna í húsið. Fullorðnir skulu halda 2 metra fjarlægð sín á milli og ekki er heimilt að fleiri en 50 fullorðnir komi saman í sama rými. Ef við verðum með fundi í skólanum þá gilda sömu reglur með fjölda og fjarlægð milli fullorðinna.

Ef brýnar ástæður eru til geta foreldrar sótt um leyfi fyrir börn sín frá skólasókn. Slíkar beiðnir skulu vera skriflegar og þar staðfesta foreldrar að þeir beri fulla ábyrgð á námi nemenda á meðan leyfi varir. Leyfisbeiðnir eru lagðar fram í Nemendaverndarráði skólans. Leyfisumsókn er að finna á heimasíðu skólans. Ef leyfi er samþykkt hefur umsjónarkennari samband við nemanda og foreldra 2-3 sinnum í viku til að fylgjast með líðan og framgangi náms.

Útskriftarathafnir þurfa að taka mið af þessum leiðbeiningum, þ.e. séu án aðkomu foreldra. Upplýsingar um útskriftir 5. júní verða sendar út síðar í maí.
Nemendur með kvef- eða flensueinkenni eru áfram beðnir um að koma ekki í skólann.

Nóg er um að vera í maí og er hægt lesa nánar um það í fréttabréfinu okkar https://www.smore.com/jg7a4.

Góðar kveðjur
Stjórnendur Vesturbæjarskóla