Skip to content

Í Vesturbæjarskóla gera nemendur frá 3. bekk einstaklingsbundna námsáætlun. Nemendur fá leiðsögn og þjálfun í því að vinna eigin námsáætlanir þar sem þeir skipuleggja vinnu sína í sérstökum áætlunartímum undir leiðsögn kennara. Nemendur skrifa niður í sérstakar áætlunarbækur þau markmið eða efni sem þeir ætla að vinna yfir ákveðið tímabil. Markmið nemenda skal ávallt vera að ljúka áætlun í skólanum. Kennari fer yfir áætlunina með nemanda viku til hálfsmánaðarlega þar sem farið er yfir þau markmið og verkefni sem fyrir lágu og ný námsáætlun gerð. Ef nemandi nær ekki að ljúka áætlun í skólanum er farið yfir áætlunina, hvort hún hafi verið raunhæf og hvernig bæta megi árangurinn. Nemendur fara með áætlunarbókina reglulega heim ásamt verkefnum til að sýna foreldrum. Foreldrar kvitta og geta skrifað athugasemdir í þar til gerðan dálk í áætlunarbók. Kvittun foreldra fyrir áætlun er mikilvæg því hún stuðlar að samtali milli heimilis og skóla.

Markmið með áætlun

 • Að gefa nemendum tækifæri til að læra að stjórna og bera ábyrgð á námi sínu sem leiðir til virkni og sjálfstæðis í námi.
 • Að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi í samvinnu við kennara og foreldra þannig að það verði merkingarbært.
 • Að hægt verði að velja hæfileg og krefjandi viðfangsefni.
 • Að nemendur geti farið á eigin hraða og náð hámarksárangri í samræmi við getu sína í einstaklingsmiðuðu námi.
 • Að gefa nemendum tækifæri til að meta stöðu sína með sjálfsmati og sjálfsrýni.
 • Að kennarar geti nýtt regluleg einstaklingsviðtöl við nemanda og notað í tengslum við leiðsagnarnám.
 • Að gefa foreldrum tækifæri til að fylgjast með og hafa áhrif á nám barna sinna.

 

Viðmið um hæfni

Að nemandi:

 • öðlist leikni til að vera verklaga sjálfbjarga í daglegu lífi með því að setja sér sjálfur markmið og gera sínar eigin námsáætlanir.
 • læri að vinna á sjálfstæðan, ábyrgan og skapandi hátt undir leiðsögn.
 • læri að fylgjast með eigin námsframvindu.

 

Að áætla

 • Nemendur gera námsáætlun vikulega til hálfsmánaðarlega og velja sér viðfangsefni og /eða markmið.
 • Nemendur skila til kennara fyrri áætlun og kennari fer yfir hvort nemandi hafi staðist þá ætlun og veitir skriflega og munnlega endurgjöf.
 • Samræða fer fram á milli kennarans og nemandans um það hvernig hefur gengið að standa við það sem nemandinn áætlaði að vinna. Hér fer fram leiðbeinandi mat. Gerð er úttekt á stöðu nemandans og hvernig áframhaldandi vinnu á að vera háttað.
 • Í áætlun er hægt að miða við námsmarkmið og bækur og blaðsíður.
 • Nemendur skrifa í áætlunarbók það sem þeir ætla að vinna á tímabilinu og kennari skráir það hjá sér.