Skip to content

Í Vesturbæjarskóla tölum við um nemendur og fjölskyldur þeirra af virðingu. Við viljum að foreldrar geti treyst því að  börn þeirra séu örugg í skólanum og að lagður sé metnaður í þá vinnu sem  fer fram innan veggja hans svo nám nemenda verði sem árangursríkast. Við erum jákvæð gagnvart hugmyndum foreldra um hvað börnum þeirra er fyrir bestu og gerum okkur grein fyrir því að þeir bera höfuðábyrgð á uppeldi barna sinna. Okkur ber skylda til að sýna foreldrum skilning og setja okkur í þeirra spor. Börnin eru það dýrmætasta sem foreldrar eiga og þau treysta okkur fyrir þeim. Allir starfsmenn Vesturbæjarskóla eru bundnir trúnaði um málefni einstaklinga.

Meginmarkmið

 • Að nemendum, starfsmönnum og foreldrum líði vel í skólanum.
 • Að kennsluaðferðir, námsefni og námsumhverfi sé miðað við áhuga, þroska og getu nemenda með það að markmiði að hver nemandi nái eins góðum árangri og kostur er.
 • Að efla frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og stuðla að skapandi hugsun og túlkun.
 • Að nemendur verði færir um að afla sér þekkingar og vinna úr henni á gagnrýninn hátt.
 • Að efla með nemendum félagsþroska, sjálfsaga og sjálfsvirðingu.
 • Að kenna nemendum tillitssemi í samskiptum, tjáskiptum og bera virðingu fyrir öðrum.
 • Að nemendur læri að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og meta verk sín og annarra.
 • Að temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á eigin þjóðfélagi og annarra.
 • Að námsmarkmið séu skýr þannig að öllum sé ljóst hvaða kröfur skólinn gerir.
 • Að efla þátt foreldra í velferð barna sinna í skólanum m.a. með hlutdeild í setningu námsmarkmiða og mati á námsárangri barna sinna.
 • Að námsmat sé unnið jafnt og þétt, það sé leiðbeinandi, hvetjandi fyrir nemendur og upplýsandi fyrir foreldra.
 • Að nemendur læri að bera ábyrgð á námi sínu í samráði við foreldra sína og kennara og að meta eigin vinnu.
 • Að leggja áherslu á forvarnarstarf og heilbrigða lífshætti.
 • Að bjóða fjölbreytt tómstundastarf á vegum skólans.

Fagmennska, sérfræði og menntastefna endurspeglast í  störfum og skipulagi kennara. Námseiningar og kennslustundir eru vel skipulagðar og tími nemenda er vel nýttur. Leitast er við að samþætta námsgreinar þar sem við á. Kennsluhættir eru fjölbreyttir og sniðnir að eðli námssviða, markmiðum náms og þörfum nemenda. Nemendur fást við fjölbreytt og krefjandi viðfangsefni sem stuðla að virkri þátttöku og rökhugsun nemenda. Námsumhverfi er vel nýtt innanhúss og utan með tengslum við samfélagið ef við á.