Skip to content

Læsisstefnan er afrakstur þróunarverkefnisins Vesturbæjarlestur sem byggir á sameiginlegum verkefnum tengdum læsi í hverfinu. Stefnan er sameiginleg lestrarstefna Grandaskóla, Hagaskóla, Melaskóla og Vesturbæjarskóla.

Markmið verkefnisins er að efla læsi nemenda í víðum skilningi í samræmi við áherslur nýrrar aðalnámskrár og nýrrar lestrarstefnu Reykjavíkurborgar. Þar sem þrír barnaskólar eru í hverfinu sem og safnskóli á unglingastigi er mikilvægt að skólarnir vinni saman þannig að samfella verði í námi nemenda skólanna. Óumdeilt er að lestur er lykill að öllu námi og því þarf lestrarkennsla og lestrarþjálfun að vera fjölbreytt og markviss. Ritun gegnir einnig sífellt stærra hlutverki í daglegu lífi fólks með tilkomu ýmissa samskiptamiðla og því er mikilvægt að efla lestur og ritun á öllum aldursstigum grunnskólans. Þeim leiðum sem nota má í skólastarfi til að efla læsi nemenda hefur fjölgað og þeir hafa nú aðgang að ýmiss konar tækni til að nota í samskiptum og námi. Því er lögð áhersla á að nemendur læri að nýta sér nýjustu tækni til þess að að efla lestur sinn og lesskilning auk þess sem áhersla er lögð á þjálfun lestrar og ritunar í hefðbundnum skilningi.

Byrjendalæsi í 1. - 2. bekk

Byrjendalæsi er kennsluaðferð ætluð yngri börnum og er notuð í 1. – 4. bekk. Kennsluaðferðin hefur verið mótuð og þróuð við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Byrjendalæsið nær til allra þátta móðurmálsins þar sem vinna með tal, hlustun, lestur og ritun eru felld saman í eina heild. Gengið er út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, að textinn sé merkingarbær og ýti undir ímyndunaraflið og hvetji nemendur til gagnrýnnar hugsunar. Áhersla er á aukinn orðaforða, lesskilning og ritun. Stór þáttur í aðferðinni er að læra að hlusta og taka eftir, læra ný orð, muna söguþráð og geta sagt frá.