Skip to content

Læsi verður til á löngum tíma. Lagður er grunnur að því á fyrstu árum ævinnar eða strax við máltöku. Áhersla á umræður, fjölbreytilega reynslu og lestur fyrir börnin tryggir þeim gott málumhverfi. Kostir þess að lesa fyrir börn eru ótvíræðir og margrannsakaðir en börn sem mikið er lesið fyrir hafa betri orðaforða og skilning á eðli ritmálsins. Hvort tveggja er mikilvæg forsenda fyrir velgengni í lestrarnámi. Lestrarnámið er  samstarfsverkefni skóla og heimilis og ef báðir aðilar sinna hlutverki sínu vel verður útkoman góð. Lestrarkennslan fer fram í skólanum en lestrarþjálfunin heima. Til að kveikja áhuga á lestri er galdurinn sá að fá börn til að sjá ákveðinn tilgang og ávinning af því að lesa. Gott aðgengi að bókum sem varðar áhugasvið barna og bókaval er lykilatriði.

Í Vesturbæjarskóla er heimanám lestrarþjálfun. Lestrarkennslan fer fram í skólanum en lestrarþjálfunin heima. Foreldrar hlusta á börn sín lesa, skrá lesturinn og skrifa hver hlustaði á barnið lesa.

Byrjendalæsi í 1. - 2. bekk

Byrjendalæsi er kennsluaðferð ætluð yngri börnum og er notuð í 1. – 4. bekk. Kennsluaðferðin hefur verið mótuð og þróuð við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Byrjendalæsið nær til allra þátta móðurmálsins þar sem vinna með tal, hlustun, lestur og ritun eru felld saman í eina heild. Gengið er út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, að textinn sé merkingarbær og ýti undir ímyndunaraflið og hvetji nemendur til gagnrýnnar hugsunar. Áhersla er á aukinn orðaforða, lesskilning og ritun. Stór þáttur í aðferðinni er að læra að hlusta og taka eftir, læra ný orð, muna söguþráð og geta sagt frá.