Skip to content

Námsmat í Vesturbæjarskóla er unnið í Mentor og geta foreldrar fylgst þar með námsframvindu barnsins síns yfir allt skólaárið. Mentor kerfið er hannað til að auðvelda skólum að vinna með hæfninám samkvæmt Aðalnámskrá.  Í hæfninámi eru hæfniviðmið veigamikill þáttur en þau eru lýsing á hæfni sem nemendur eiga að stefna að. Hæfnikortin í Mentor innihalda þessi hæfniviðmið fyrir hverja námsgrein og hvern árgang. Við mælum með því að foreldrar nái sér í Mentor appið fyrir snjallsíma.

Í skólanum eru notaðar fjölbreyttar leiðir í námsmati. Kennarar meta jafnt og þétt yfir skólaárið og skrá hjá sér hvernig nemandi hefur staðið sig. Þessi skráning á sér ýmist stað við yfirferð á könnunum, athugun á vettvangi eða við skoðun á verkefnum nemenda. Nemendur meta einnig eigin vinnu og annarra með sjálfsmati og jafningjamati miðað við þroska og eðli verkefna. Hér til hliðar er hægt að lesa nánar um matskvarðana sem notaðir eru í námsmatinu.

Leiðsagnarnám

Í Vesturbæjarskóla er lögð áhersla á leiðsagnarnám. Í leiðsagnarnámi velta nemendur reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu.

Sjálfsmat

Tvisvar sinnum á skólaári gera nemendur ásamt foreldrum sjálfsmat. Sjálfsmatið er unnið fyrir samráðsfundi í október og janúar. Með sjálfsmati leggja nemendur mat á eigin frammistöðu og getu sem virkjar nemendur til þátttöku og ábyrgðar á námi sínu. Ætlast er til þess að foreldrar geri sjálfsmatið með börnum sínum og eigi þar samtal um líðan og frammistöðu í skólanum. Á samráðsfundum meta kennarar, foreldrar og nemendur stöðuna og koma sér saman um markmið sem stefnt er að.

Sýnishorn

Kennarar nota svokallaða sýnishornamöppu sér til aðstoðar við matið. Inn í þá möppu fara sýnishorn af vinnu nemenda og nýtist hún vel til að meta framfarir t.d. í sögugerð og skrift. Kennarar taka sýnishorn af vinnu nemenda tvisvar til þrisvar á vetri og safna saman í möppu. Þegar nemendur hætta í skólanum fá þeir möppuna afhenta á útskriftarhátíð 7. bekkjar.

Mikilvægir þættir

Á skólaslitadaginn fá nemendur afhenta mikilvæga þætti. Þeir lýsa lykilhæfni sem skilgreind er í Aðalnámskrá grunnskóla þar sem metnir eru meðal annars þættir um hæfni til tjáningar, gagnrýnnar hugsunar, hæfni til samstarfs við aðra, sjálfsþekkingar, ábyrgðar og sjálfstæðis og frumkvæðis.  Kennarar gefa nemendum einnig umsögn og er markmiðið að hún leiðbeini nemandanum og styrki um leið sjálfsmynd hans.