Skip to content

Í Vesturbæjarskóla er leitast við að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda með því að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti og námsefni. Lögð er áhersla á samvinnu nemenda og kennara með teymiskennslu. Teymiskennsla gefur kennurum tækifæri til að vinna saman að verkefnum í daglegu starfi. Fagleg teymi gefa kennurum tækifæri til að þróa og læra í starfi. Skólaþróun snýst um að gera skólana að betri stað til náms og þroska fyrir nemendur og styrkja skólasamfélagið til að takast á við breytingar.

 

Markmið teymiskennslu í Vesturbæjarskóla eru:

  • Að styrkja nemendur félagslega og að þeir læri að takast á við breytingar.
  • Að nemendur verði sjálfstæðir og ábyrgir í námi sínu og læri að vinna saman í fjölbreyttum hópi.
  • Að nýta fjölbreyttar kennsluaðferðir til að koma til móts við mismunandi þarfir, þroska og getu nemenda í einstaklingsmiðuðu námi.
  • Að bæta og auka samstarf starfsfólks með aukinni faglegri samvinnu og sameiginlegri ábyrgð.
  • Að efla kennara í starfi og styðja við skólaþróun.
  • Að skapa heildstæða kennslu árganga þannig að litið verði á árganginn sem eina heild.

Kennarar í teymiskennslu

Í upphafi skólaárs ræða kennarar í teymum væntingar sínar til teymiskennslunnar og viðhorf og gildi til náms, kennslu og nemenda. Sameiginleg sýn kennara er að teymiskennsla einkennist af gagnkvæmum skilningi, virðingu og trausti. Teymin setja sér reglur um samvinnu og samskipti, ræða um fyrirkomulag í kennslustofunum, námsefni, kennsluaðferðir, námsmarkmið, námsmat og annað sem viðkemur námi nemenda og vinnulagi teymisins. Slík samræða styrkir og styður við menningu teymisins. Kennarar vinna í sameiningu að öllum undirbúningi fyrir kennslu og daglegu starfi með nemendum. Teymin staldra reglulega við og ræða stöðu teymisins á gagnrýninn og hreinskilinn hátt og skoða hvort verið sé að vinna í samræmi við þau markmið sem sett voru í upphafi. Samstarf kennara í teyminu er mjög mikið og daglega skiptast þeir á upplýsingum um nemendur, eiga í samskiptum við foreldra og annað er við kemur skólastarfinu. Kennarar í teymi vinna sameiginlega að námsmati hvers nemenda og eiga samtal um námsframvindu sem gerir námsmat faglegra. Kennarar hafa betri yfirsýn yfir samskipti nemenda og félags-, tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem hafa svipaðan skilning á nemandanum. Sveigjanleikinn sem teymiskennsla hefur í för með sér gerir kennurum kleift að bregðast hraðar og betur við þegar upp koma vandamál í félagslegum samskiptum nemenda.

Mikilvægt er að kennarar séu samstíga til að koma í veg fyrir misskilning og ósamræmi í skilaboðum til nemenda. Allar ákvarðanir sem teknar eru í skólastarfinu eiga að vera vel ígrundaðar og byggjast á faglegum sjónarmiðum, ávallt með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Nemendur í teymiskennslu

Meiri sveigjanleiki og fjölbreytni er í verkefnum fyrir nemendur í teymiskennslu og námsmat er sanngjarnara. Kennarar telja að hægt sé að hafa fjölbreyttari hópa og mæta þannig ólíkum þörfum nemenda, en rannsóknir sýna að getublandaðir hópar leiða til betri námsárangurs. Nemendur tengjast fleiri kennurum og geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifað jákvæðar fyrirmyndir í samskiptum fullorðinna. Öryggi er fyrir hendi hjá nemendum þótt einn kennara vanti. Í teymiskennslu fá nemendur tækifæri til aukinnar reynslu og þroska, bæði félagslega og námslega. Einhverjir foreldrar hafa lýst áhyggjum sínum af því að börn geti týnst í þessu kerfi en kennararnir eru sammála um að þau týnist síður þar sem betur sjá augu en auga.

Skipulag

Teymiskennsla felur í sér sameiginlega ábyrgð tveggja eða fleiri kennara á námi nemenda, kennslu, daglegum samskiptum og samstarfi með nemendahóp. Þeir vinna náið saman með nemendahóp og bera sameiginlega ábyrgð á námi, líðan og kennslu nemenda.

Hópaskiptingar

Nemendum er skipt í mismunandi marga hópa og fer það eftir stærð árganga og fjölda kennara. Ef kennarar í árgangi eru tveir er nemendum skipt í fjóra hópa og ef kennarar í árgangi eru þrír er nemendum skipt í sex hópa. Á hverju tímabili eru tveir hópar í senn hjá hverjum kennara. Hópar geta tekið breytingum yfir skólaárið og eru slíkar ákvarðanir ávallt teknar með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Skipti

Mismunandi er hversu oft skipti fara fram en algengast er að þau fari fram á tveggja til þriggja vikna fresti sem þýðir að nemandi er hjá sama kennara í fjórar til sex vikur. Kennarar teymisins ákveða hversu oft er skipt og getur það tekið breytingum yfir skólaárið. Foreldra á ávallt að upplýsa um slíkar breytingar. Kennarar hittast fyrir skipti, fara yfir nemendahópinn og undirbúa skiptinguna. Nemendur eru upplýstir um hvenær skipti fara fram og undirbúnir fyrir þau. Í 1. og 2. bekk eru foreldrar upplýstir um skipti svo þeir geti einnig undirbúið börnin sín fyrir þau. Þegar skipti fara fram ganga nemendur á milli með skúffur sínar og öskjur í þá stofu sem þeir eiga næst að fara í. Hafa skal í huga að þegar skipti fara fram er helmingur hópsins að færa sig um set.

Stofuskipan

Kennarar hafa hver sína stofu til umráða og nemendur flæða á milli. Reynt er að hafa skipulag sem líkast í öllum stofunum þannig að nemendur viti að hverju þeir ganga þegar þeir koma í nýja stofu. Kennarar undirbúa námsumhverfið þannig að sömu reglur gilda í hverri stofu eins og hægt er.

Samskipti við foreldra

Kennarar senda foreldrum sameiginlegan póst vikulega um starfið í skólanum og annað sem er á döfinni. Í vikupósti koma meðal annars fram upplýsingar um væntanleg skipti. Algengast er að foreldrar hafi samband við þann kennara sem barnið er hjá hverju sinni en foreldri getur einnig haft samband við einn ákveðinn kennara eða alla eftir því sem þykir henta. Markmiðið er að alltaf sé hægt að ná sambandi við kennara sem þekkir nemandann og er inni í málum hans, veit um hagi hans og getur brugðist við ef kennari í teyminu forfallast til dæmis vegna veikinda til lengri eða skemmri tíma. Ef haldnir eru fundir með foreldrum sitja allir kennarar teymisins fundinn og stundum einnig samráðsfundi sem haldnir eru tvisvar sinnum á skólaári. Meginreglan varðandi samráðsfundi er að sá kennari sem nemandi er hjá þegar samráðsfundirnir fara fram hittir nemanda og foreldra á þeim fundi. Að samráðsfundum loknum upplýsa kennarar hvern annan um það sem fram kom í viðtölunum.  Bæði foreldrar og kennarar geta óskað eftir því að fleiri kennarar úr teyminu sitji fundinn og er reynt að koma til móts við það eins og unnt er.