Skip to content

Í Vesturbæjarskóla er leitast við að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda með því að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti og námsefni. Lögð er áhersla á samvinnu nemenda og kennara með teymiskennslu. Teymiskennsla gefur kennurum tækifæri til að vinna saman að verkefnum í daglegu starfi og er ein leið til að ná betri árangri. Fagleg teymi gefa kennurum tækifæri til að þróa og læra í starfi. Skólaþróun snýst um að gera skólana að betri stað til náms og þroska fyrir nemendur og styrkja skólasamfélagið til að takast á við breytingar.

Hér til hliðar eru skýrslur um mat á teymiskennslu í Vesturbæjarskóla skólaárið 2017-2018 og 2018-2019.

Markmið teymiskennslu í Vesturbæjarskóla eru:

  • Að styrkja nemendur félagslega og að þeir læri að takast á við breytingar.
  • Að nemendur verði sjálfstæðir og ábyrgir í námi sínu og læri að vinna saman í fjölbreyttum hópi.
  • Að nýta fjölbreyttar kennsluaðferðir til að koma til móts við mismunandi þarfir, þroska og getu nemenda í einstaklingsmiðuðu námi.
  • Að bæta og auka samstarf starfsfólks með aukinni faglegri samvinnu og sameiginlegri ábyrgð.
  • Að efla kennara í starfi og styðja við skólaþróun.
  • Að skapa heildstæða kennslu árganga þannig að litið verði á árganginn sem eina heild.

Kennarar í teymiskennslu

Í upphafi skólaárs ræða kennarar í teymum væntingar sínar til teymiskennslunnar og viðhorf og gildi til náms, kennslu og nemenda. Teymiskennsla einkennist af gagnkvæmum skilningi, virðingu og trausti. Teymin setja sér siðareglur um samvinnu og samskipti, ræða um fyrirkomulag í kennslustofunum, námsefni, kennsluaðferðir, námsmarkmið, námsmat og annað sem viðkemur námi nemenda og vinnulagi teymisins. Slík samræða styrkir og styður við menningu teymisins. Kennarar vinna í sameiningu að öllum undirbúningi fyrir kennslu og daglegu starfi með nemendum. Teymin staldra reglulega við og ræða stöðu teymisins á gagnrýninn og hreinskilinn hátt og skoða hvort verið sé að vinna í samræmi við þau markmið sem sett voru í upphafi. Samstarf kennara í teyminu er mjög mikið og daglega skiptast þeir á upplýsingum um nemendur, samskipti við foreldra og annað er við kemur skólastarfinu og taka sameiginlegar ákvarðanir. Kennarar í teymiskennslu hafa betri yfirsýn yfir samskipti nemenda og félags-, tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem hafa svipaðan skilning á nemandanum. Eins og aðrir kennsluhættir hentar teymiskennsla ekki öllum og alltaf eru einhverjir nemendur sem finna sig ekki í þessu fyrirkomulagi. Þess vegna er mikilvægt að kennarar séu samstíga og samræmi sig vel til að koma í veg fyrir misskilning og ósamræmi í skilaboðum til nemenda. Allar ákvarðanir sem teknar eru í skólastarfinu eiga að vera vel ígrundaðar og byggjast á faglegum sjónarmiðum, ávallt með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Nemendur í teymiskennslu

Rannsóknir benda til þess að þegar vel tekst til hefur teymiskennsla jákvæða félagslega þýðingu fyrir nemendur og stuðlar að betri hegðun nemenda, ástundun og jákvæðum viðhorfum til náms, kennara og skóla. Fyrir nemendur í teymiskennslu er meiri sveigjanleiki og fjölbreytni í verkefnum og námsmat er sanngjarnara. Hægt er að hafa fjölbreyttari hópa og mæta þannig ólíkum þörfum nemenda en rannsóknir sýna að getublandaðir hópar leiða til betri námsárangurs. Nemendur tengjast fleiri kennurum og geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifað jákvæðar fyrirmyndir í samskiptum fullorðinna. Öryggi er fyrir hendi þótt einn kennara vanti. Í teymiskennslu fá nemendur tækifæri til aukinnar reynslu og þroska, bæði félagslega og námslega. Ef barn á erfitt með að fóta sig í teymiskennslu finna kennarar leiðir í samráði við foreldra til að koma til móts við þarfir barnsins.

Skipulag

Teymiskennsla felur í sér sameiginlega ábyrgð tveggja eða fleiri kennara á námi nemenda, kennslu, daglegum samskiptum og samstarfi með nemendahóp. Þeir vinna náið saman með nemendahóp og bera sameiginlega ábyrgð á námi, líðan og kennslu nemenda.

Hópaskiptingar

Nemendum er skipt í mismunandi marga hópa og fer það eftir stærð árganga og fjölda kennara. Ef kennarar í árgangi eru tveir er nemendum skipt í fjóra hópa og ef kennarar í árgangi eru þrír er nemendum skipt í sex hópa. Á hverju tímabili eru tveir hópar í senn hjá hverjum kennara. Hópar geta tekið breytingum yfir skólaárið og eru slíkar ákvarðanir ávallt teknar með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Skipti

Mismunandi er hversu oft skipti fara fram en algengast er að þau fari fram á tveggja til þriggja vikna fresti sem þýðir að nemandi er hjá sama kennara í fjórar til sex vikur. Kennarar teymisins ákveða hversu oft er skipt og getur það tekið breytingum yfir skólaárið. Foreldra á ávallt að upplýsa um slíkar breytingar. Kennarar hittast fyrir skipti, fara yfir nemendahópinn og undirbúa skiptinguna. Nemendur eru upplýstir um hvenær skipti fara fram og undirbúnir fyrir þau. Í 1. og 2. bekk eru foreldrar upplýstir um skipti svo þeir geti einnig undirbúið börnin sín fyrir þau. Þegar skipti fara fram ganga nemendur á milli með skúffur sínar og öskjur í þá stofu sem þeir eiga næst að fara í. Hafa skal í huga að þegar skipti fara fram er helmingur hópsins að færa sig um set.

Stofuskipan

Kennarar hafa hver sína stofu til umráða og nemendur flæða á milli. Reynt er að hafa skipulag sem líkast í öllum stofunum þannig að nemendur viti að hverju þeir ganga þegar þeir koma í nýja stofu. Kennarar undirbúa námsumhverfið þannig að sömu reglur gilda í hverri stofu eins og hægt er.

Vikupóstur

Kennarar senda foreldrum póst vikulega um starfið í skólanum og annað sem er á döfinni. Í vikupósti koma meðal annars fram upplýsingar um væntanleg skipti.

Foreldrar

Algengast er að foreldrar hafi samband við þann kennara sem barnið er hjá hverju sinni en foreldri getur einnig haft samband við einn ákveðinn kennara eftir því sem þykir henta. Sama gildir um þegar foreldrar eiga í tölvupóstssamskiptum við kennara. Markmið er að alltaf sé hægt að ná sambandi við kennara sem er inni í málum nemanda, veit um hagi hans og geti brugðist við ef annar kennari í teyminu forfallast til dæmis vegna veikinda til lengri eða skemmri tíma. Ef upp koma vandamál hjá nemanda bregðast kennarar við eins fljótt og auðið er. Kennarar ræða saman daglega um mál nemenda og samskipti við foreldra. Ef funda þarf með foreldrum sérstaklega á öðrum fundum en samráðsfundum taka allir kennarar teymisins þátt í slíkum fundi.

Foreldrasamstarf

Í hverjum árgangi bjóða foreldrar sig fram til að vera bekkjarfulltrúar. Miðað er við að á hverja tíu nemendur sé einn bekkjarfulltrúi. Hlutverk bekkjarfulltrúa er að stuðla að jákvæðu og uppbyggilegu samstarfi foreldra, vera í góðu samstarfi við foreldrafélag skólans og skipuleggja viðburði fyrir allan hópinn einu sinni til tvisvar á skólaári. Foreldrum er frjálst að búa til Facebook hópa og gott er að allir foreldrar í árganginum séu í einum hópi. Foreldrum er frjálst að bjóða kennurum árgangsins í hópinn. Stundum hafa foreldrar ákveðið að hittast án barna til að kynnast og ræða saman og er það oft gert að frumkvæði bekkjarfulltrúa.

Samráðsfundir

Meginreglan varðandi samráðsfundi er að sá kennari sem nemandi er hjá þegar samráðsfundirnir fara fram hittir nemanda og foreldra á þeim fundi. Bæði foreldrar og kennarar geta óskað eftir því að fleiri kennarar úr teyminu sitji fundinn og er reynt að koma til móts við það eins og unnt er. Ef skipting fer fram stuttu fyrir samráðsfund hittir sá kennari nemanda og foreldra sem var með nemandann áður en skipting fór fram.

Vinahópar

Foreldrar í árgangi geta óskað eftir vinahópum. Þá er það hlutverk kennara að skipta nemendum í vinahópa og senda út á foreldra. Hlutverk foreldra er að ná saman og láta hópana hittast jafn oft og nemendur eru margir í hópnum fyrir áramót og einu sinni eftir áramót. Vinahópum er breytt eftir áramót til að gefa fleirum tækifæri á að kynnast betur.

Afmæli

Allur gangur er á því hvernig fyrirkomulag um afmæli eru. Ákvarðanir um afmæli eru alfarið í höndum foreldra. Mikilvægt er að hafa í huga að ekkert barn má verða út undan. Í einhverjum árgöngum hafa foreldrar barna sem eiga afmæli á svipuðum tíma tekið sig saman og haldið afmæli fyrir börnin saman. Mögulegt er að fá sal skólans leigðan fyrir slíkar uppákomur í samráði við stjórnendur skólans.