Skip to content

Öll börn eru jöfn

Vinafjölskyldur efla tengsl og stuðla að auknu jafnræði meðal barna í Vesturbæjarskóla. Með vináttu og virðingu að leiðarljósi styðja fjölskyldur, sem þekkja skólasamfélagið, við fjölskyldur nýrra barna í skólanum. Markmið vinafjölskyldna er að öll börn hafi tækifæri til að taka þátt í skólasamfélaginu og njóti stuðnings fjölskyldu sinnar. Áhersla er lögð á móttöku fjölskyldna af erlendum uppruna, en verkefnið takmarkast þó ekki við þann hóp.

Vinafjölskyldur styðja við markmið Réttindaskóla UNICEF. Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Í Réttindaskólum læra börn um mannréttindi sín og er réttindum þeirra fylgt eftir í skipulagi skólans, m.a. í samskiptum barna, kennara, starfsfólks, foreldra og frístundaleiðbeinenda.

Frumkvæði að Vinafjölskylduverkefninu áttu þrjár  mæður í Vesturbæjarskóla árið 2008, Margrét Gylfadóttir, María Helena Sarabia og Sesselja Th. Ólafsdóttir. Verkefnið hlaut styrk úr forvarna- og framfarasjóði  Reykjavíkurborgar.

Af hverju Vinafjölskyldur?

Í ljósi þess að hlutfall erlendra barna með annað móðurmál en íslensku hefur aukist umtalsvert í Vesturbæjarskóla, vilja fulltrúar foreldra í Réttindaráði og foreldrafélag skólans hvetja til virkrar þátttöku barnanna og fjölskyldna þeirra innan skólasamfélagsins, ásamt því að auka áhuga á heimamenningu barnanna.

Það hefur sýnt sig að þegar börn hefja nám í nýjum skóla í nýju landi geta þau upplifað einmanaleika, útilokun og einangrun. Til þess að koma í veg fyrir slíka líðan taka vinafjölskyldur þátt í aðlögun, sem er gagnkvæmt ferli milli íslensku fjölskyldunnar og þeirrar erlendu. Markmiðið er að auðvelda börnum og fjölskyldum þeirra að vera sjálfbjarga og auka möguleika þeirra á að vera virkir þátttakendur í skólasamfélaginu. Í samræmi við meginstefnumið skólans vonumst við til að vinafjölskyldur stuðli jafnframt að virkni og sjálfstæðis barna í námi.

Framkvæmdaferli Vinafjölskyldna

1. Stjórn Vinafjölskyldna í Vesturbæjarskóla er skipuð fulltrúum foreldra í Réttindaráði, fulltrúa foreldra í foreldrafélagi skólans, og verkefnastjórum réttindaskólaverkefnisins. Æskilegt er að fulltrúar foreldra sitji í tvö ár í senn í stjórn. Stjórn ber ábyrgð á kynningu á verkefninu meðal foreldra.

3. Umsjónarkennarar kynna verkefnið fyrir foreldrum og börnum sinna bekkja, auglýsa eftir áhugasömum vinafjölskyldum og bjóða, í samstarfi við verkefnastjóra réttindaskólaverkefnisins, erlendum fjölskyldum til þátttöku. Leitað verður eftir túlkaþjónustu til að útskýra verkefnið, ef þörf er á. Áhersla skal lögð á gott og virkt upplýsingaflæði milli skóla, kennara, foreldra og barna, um námið og félagslega viðburði í skólanum.

4. Stjórn vinafjölskyldna skipuleggur fund milli vinafjölskyldna ef þurfa þykir, t.d. ef foreldrar eiga ekkert sameiginlegt tungumál og þurfa aðstoð túlks. Gott er að hafa fund að hausti fyrir allar nýjar vinafjölskyldur. Á fundinum er farið yfir tilgang verkefnisins, skipst á símanúmerum og öðrum mikilvægum upplýsingum, farið yfir hugmyndir um stuðning, ásamt því að leggja áherslu á gagnkvæma virðingu. Fundir eru haldnir eftir þörfum yfir veturinn.
Til Vinafjölskyldna

Vinafjölskyldur leggja áherslu á virðingu og vináttu og að báðar fjölskyldur gefi, þiggi og læri hvor af annarri. Um leið og erlendar fjölskyldur kynnast íslenskum siðum og venjum, kynnast þær íslensku annarri menningu og þar með gefst kostur á að efla fjölmenningarlegt samfélag í Vesturbæjarskóla.

Hugmyndir fyrir vinafjölskyldur
• að opna boðleiðir þannig að íslenskar fjölskyldur upplýsi þær erlendu um bekkjarkvöld, merkisdaga, frí og skemmtanir skólans og hvernig slíkir viðburðir fari fram. Til að mynda getur íslenska fjölskyldan komið við hjá þeirri erlendu og þær fylgst að í skólann.
• að kynna börnunum og fjölskyldum þeirra fyrir íþrótta- og tómstundastörfum í nágrenninu og aðstoða þau við að finna leiðir til ástundunar.
• að bjóða börnunum að hjálpa þeim með heimalestur.