Skip to content

Vesturbæjarskóli Réttindaskóli Unicef

Í dag var haldin mikil hátíð í skólanum. Auk þess sem við fögnuðum degi mannréttinda barna og 30 ára afmæli Barnasáttmálans fengum við viðurkenninguna Réttindaskóli Unicef. Frá haustinu 2018 höfum við unnið markvisst að því að vinna með réttindi barna og tengja Barnasáttmálann inn í allt skólastarfið.

Öll börnin í skólanum hafa síðustu daga komið að því að búa til skreytingar bæði inni og úti. Einnig hefur það verið sameiginlegt verkefni okkar að búa til barnaréttindalag. Réttindaráð ákvað að texti yrði búinn til við lagið Snjókorn falla og var útkoman alveg ótrúlega falleg og skemmtileg. Lagið heitir Betri veröld og má heyra börnin syngja það í myndbandi hér að neðan.

Réttindaráð undirbjó daginn og stýrði dagskránni á sal um morguninn. Við fengum góða gesti frá borginni og meðal annars tók borgarstjórinn okkar til máls. Skólahljómsveit Vesturbæjar spilaði fyrir okkur og undir samsöng sem setti sinn hátíðarbrag á daginn.


Nilla og Pétur frá Unicef afhentu okkur, Skýjaborgum og Frostheimum viðurkenningu fyrir að vera Réttindaskóli og Réttindafrístundir.

Réttindaráð kynnti niðurstöður úr barnakosningunum en þær voru þannig að flest börnin í skólanum kusu pizzu í hádegismat, í morgunfrímínútum var í boði að vera inni að lita, dansa og leika í íþróttasal og að sjálfsögðu að fara út.

Kennarar skipulögðu alla kennslu í dag sérstaklega út frá réttindum barna og barnasáttmálanum.

Eftir hádegi var öllum boðið í sparikaffi þar sem við fengum köku og safa.

Dagurinn var í alla staði frábær og við höldum áfram að vinna markvisst að því að kenna börnum og fullorðnum um réttindi barna og taka allar ákvarðanir út frá því sem er barninu fyrir bestu.